➝ Disappointing Sculpture

(Curated by Heiðar Kári Rannversson) - Kunstschlager, Reykjavik, Iceland, 2013.

Konseptlistamaðurinn hafði nýlokið við verk, skúlptúr sem hann hafði hugsað sér að láta staðsetja í horni sýningarsals. Verkið var í senn staðreynd um óendanleika listarinnar og bláköld staðfesting á endanleika hennar. Listamaðurinn var tómur að innan eftir sköpunarferlið, fannst skúlptúrinn hafa tæmt sig. Þetta var á sama tíma og hann sá teikninguna. Myndin var af ónefndum sýningarsal þar sem skúlptúr var staðsettur við hlið plöntu, en sýningargestur horfði álengdar á uppstillinguna. Listamaðurinn vissi ekki strax hversvegna hann hreifst af henni. Sennilega fannst honum teikningin taka á sig mynd tómleikans innra með honum, veita honum sömu tilfinningu og þeirri sem hann hafði fundið fyrir þegar hann lauk við skúlptúrinn. Listamanninum fannst þessi teikning ferlega hallærisleg, sérstaklega framsetningin á sýningargestinum á myndinni. En þannig átti hún líka að vera og hann keypti teikninguna. Það var sýningargesturinn á teikningunni sem hreif hann. Þetta var listamaðurinn sjálfur sem var á myndinni, hann var áhorfandi að sínu eigin verki. Þarna horfði hann á sjálfan sig horfa á óendanleika og endanleika skúlptúrsins. Einhvern veginn minnti holning áhorfandans hann á líðan sína, tilfinningu tómleikans þegar hann stóð andspænis listinni. Á teikningunni hélt áhorfandinn á úthendu, sem mögulega átti að útskýra inntak verksins. En hún virtist ekki koma að neinu gagni og lesa mátti af andliti sýningargestsins að hann væri hálf gáttaður á sýningunni. Svo var það plantan, sem staðsett var í horni sýningarsalsins við hlið skúlptúrsins. Hún vakti líka forvitni listamannsins. Hann hafði tekið eftir áráttukenndri hegðun samtímalistarinnar að nota pottaplöntur á listsýningum. Kannski var þetta viðleitni listamanna til þess að ná fram heimilislegri stemningu í sýningarsalnum og færa listina nær hlutveruleikanum, til að bæta líðan áhorfandans. Kannski til að undirstrika skreytigildi og þannig yfirborðsmennsku samtímalistarinnar. Listamaðurinn hugsaði sem svo að pottaplantan á teikningunni væri ígildi manneskju, hún var jú lifandi rétt eins og hann. Hvernig sem á því stóð voru líkindi með verki listamannsins og skúlptúrsins á teikningunni óumflýjanleg. Hann hafði ekki sýnt neinum þetta nýjasta verk sitt, og nú birtist það allt í einu sem myndefni verks eftir annan en hann sjálfan. Skilin milli hins ímyndaða veruleika teikningarinnar og hlutveruleikans umhverfis hana máðust út. Listamaðurinn áttaði sig á því að tilfinningin sem hann hafði fundið fyrir þegar hann lauk við skúlptúrinn væri sama tilfinning og listamaður teikningarinnar fangaði í verki sínu. Disappointing sculpture var orðasambandið sem kom fram á varir konseptlistamannsins þegar hann sá teikninguna og um leið varð til tvíþætt spurning í huga hans: Hefur mér enn einu sinni mistekist áætlunarverk mitt, veldur skúlptúrinn áhorfandanum og mér sjálfum vonbrigðum? Eða hefur mér mistekist á annan hátt, er þessu kannski öfugt farið: Hef ég með þessu verki valdið skúlptúrnum, það er listforminu sjálfu, vonbrigðum??

"Konsept Listamaðurinn" or "The Concept Artist" pencil on paper, 29.7 x 42.0 cm, 2010 + Yucca.

"Disappointing Sclulpture" Kunstslacher, Reykjavik, 2013

"The Curator Cleans the Exhibition Space" photograph, 2013